Ég heiti Elín Björk, dags daglega kölluð Elín, en hef síðan vorið 2005, samkvæmt tillögu frá ástkærri ömmu minni valið að nota Bjarkar-nafnið á myndirnar mínar.  

Ég hef alltaf haft gaman af því að mála og teikna, blýantur var mitt uppáhalds tjáningarform framan af, eða þar til ég kynntist olíunni fyrst fyrir alvöru í kring um 1992-3. Annasemi og barnauppeldi tók þó yfirhöndina og málaði ég einungis fáein verk að meðaltali á ári hverju þar til vorið 2005. Ég á það góðri vinkonu að þakka að ég dreif mig af stað aftur, en hún mætti til mín með vatnsliti og vatnslitabók og sagði mér að hefjast handa.

Og nú er ég hér, öflugri en nokkru sinni fyrr og nýt þess til fulls að mála vel flesta daga. Mitt uppáhaldsviðfangsefni er konulíkaminn og mjúkar línur, sterkir glaðir litir og tilfinningar. Með spaða eða pensil í hönd mála ég það sem andinn blæs mér í brjóst hverju sinni, hvort sem það eru fyrirfram mótaðar hugmyndir í höfðinu eða myndir sem ég sé inni í striganum. Olían er mitt uppáhald en mér finnst gaman að spreyta mig á nýjungum, acrýl, vatnslitum, pastel.......

Hingað til hef ég verið hógvær og ekki borið verkin mín á torg, en með hækkandi aldri og aukinni reynslu hef ég lært að maður skyldi ætíð lifa sína drauma, framkvæma þá og sjá þá verða að veruleika. Hér með er minn draumur kominn á daginn, ég er að lifa hann. ;)

© elin bjork gudbrandsdottir